141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[10:54]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Stóra myndin er þessi: Á starfstíma þessarar ríkisstjórnar hefur tekist að ná fjárlagahallanum úr yfir 200 milljörðum kr. í rétt rúma 2 milljarða kr. Þetta höfum við gert með því vissulega að fara í niðurskurð en ekki síður með því að breyta tekjum ríkissjóðs. Á sama tíma höfum við gætt að velferðinni og núna með þeim fjárlögum sem hér birtast er farið að sækja fram á nýjan leik. Hér er verið að leggja til fjárfestingar í þær greinar atvinnulífsins sem eiga mesta vaxtarmöguleikana, þar sem verðmætasköpun getur átt sér stað á næstu árum, hvort sem það er með tilliti til umhverfisverndar, skapandi greina eða ferðaþjónustu.

Það er hafinn sóknarleikur á ný í íslensku atvinnulífi og fyrir það ber að þakka. Það skulum við gera. Þessi fjárlög marka skýra stefnu í þá átt að hér er hafin uppbygging á nýjan leik undir merkjum jafnaðarmennsku.