141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Nú ræðum við um atlögu að sjávarútveginum. Það er önnur undirstöðuatvinnugrein í landinu sem ríkisstjórninni líkar ekki við.

Veiðigjaldið hefur þann ókost að það byggir á eldgömlum tölum. Það byggir á allt að 15 mánaða gömlum tölum, en markaðsaðstæður geta breyst og þær eru að breytast. Sjávarútvegurinn fær ekki sama verð fyrir fiskinn og áður og allar forsendur fyrir veiðigjaldinu eru farnar. Það heldur hins vegar áfram auk þess sem það leggst að meðaltali á öll fyrirtæki. Sum þeirra munu ekki standa undir því. Fjöldi fyrirtækja mun fara á hausinn, við skulum gera okkur grein fyrir því. Auk þess geta sumar veiðar ekki staðið undir þessu gjaldi vegna þess að þorskígildisákvörðunin er ekki rétt. Það þýðir að sumar veiðar munu bara leggjast af, menn munu hætta að veiða ákveðnar tegundir af fiski. Ég segi nei við þessu. Þetta er mjög vitlaus skattur og þarf að hugsa allt upp á nýtt.