141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:42]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Stjórnarliðar hafa kallað það að verið sé að koma arðinum til þjóðarinnar með því veiðigjaldi sem búið er að lögfesta. Við höfum séð hvernig þessi framkvæmd er í raun, hvernig þessi arður til þjóðarinnar birtist okkur. Hann birtist okkur til dæmis í margvíslegum uppsögnum hjá smáum útgerðum allt í kringum landið sem ekki hafa ratað inn í fjölmiðlana. Það birtist okkur í gær í Þorlákshöfn, í síðustu viku á Siglufirði, í síðasta mánuði í Reykjavík.

Það er í raun og veru ekki pólitískur ágreiningur um að eðlilegt sé að sjávarútvegurinn greiði veiðigjald, en það verður þá að vera af einhverri skynsemi. Nú er verið að beita rangri aðferð. Það er verið að innheimta of hátt gjald og þessi gjaldtaka leiðir til mismununar í sjávarútvegi. Hvenær ætla menn að skilja það? Hvenær ætla menn að átta sig á því að staða einstakra greina innan sjávarútvegsins er mismunandi? Staða einstakra útgerðarformanna er mismunandi. En það er ekki horft til þess, menn berja hausnum við steininn (Forseti hringir.) og láta sem ekkert sé, halda áfram í sinni frasapólitík en taka ekkert tillit til staðreynda.