141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið erum við hér að taka við aðlögunarfé frá Evrópusambandinu. Þetta eru skattfrjálsir peningar vegna laga sem Alþingi samþykkti, um að veita Evrópusambandinu skattfrelsi. Þetta eru líka fjármunir sem krefjast mótframlags af hálfu ríkissjóðs, mótframlags upp á hundruð milljóna króna.

Ég vil benda á að á sama tíma og ríkisstjórnin heldur áfram á þessari vegferð, þiggur aðlögunarfé frá Evrópusambandinu skattfrjálst, er meiri hluti þjóðarinnar andsnúinn Evrópusambandsaðild og meiri hluti þjóðarinnar vill draga umsóknina til baka. Það sýna skoðanakannanir ítrekað.

Hér er þingið ítrekað, ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir, að fara gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar. Á sama tíma horfum við upp á niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Væri þessum fjármunum ekki betur varið í Landspítalann í staðinn fyrir að taka við aðlögunarfé frá Evrópusambandinu?