141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:52]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það hefur verið með miklum ólíkindum að fylgjast með því hvernig upphaflegar yfirlýsingar, um að ekki kæmi til greina að taka við styrkjum af þessum toga, hafa breyst yfir í einhvers konar málamyndasamkomulag um að undir vissum kringumstæðum geti það verið í lagi. Sérstaklega á það við um þá sem tilheyra þingflokki Vinstri grænna, maður trúði því reyndar aldrei að þeir mundu samþykkja að taka á móti slíkum styrkjum.

Stóra spurningin er samt sem áður þessi: Hvernig líður þeim sem aldrei hyggjast styðja samninga að Evrópusambandinu og eru á móti því að viðræðurnar standa yfir? Ég nefni hæstv. innanríkisráðherra. Hvernig líður honum með að taka við 800 millj. kr. vegna umsóknarferlisins, [Kliður í þingsal.] hvernig líður mönnum með að samþykkja að taka við 800 millj. kr., sem verða notaðar til að byggja upp alls konar innviði stofnana, (Forseti hringir.) eins og t.d. Hagstofunnar, á sama tíma og menn ætla sér á endanum ekki að samþykkja samninginn, sama hvernig hann lítur út? Ég held að menn hljóti að vera með afskaplega vonda samvisku. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ef ég gæti fengið frið fyrir hv. þm. Merði Árnasyni, sem er hér eins og óþekkur krakki í þingsalnum, (Forseti hringir.) þá gæti ég kannski nýtt ræðutímann betur.