141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við upphaf atkvæðagreiðslunnar um fjárlögin í morgun var talað um það af hálfu stjórnarmeirihlutans að niðurskurði væri lokið og viðspyrna væri hafin. Það er fróðlegt að sjá, af þeim tillögum sem hér liggja fyrir, hvað liggur í þessu. Það er alveg rétt að sums staðar er bætt í, annars staðar haldið aftur og á þriðja staðnum er dregið niður.

Ef við skoðum aðeins hvar þær liggja þessar áherslur þá getum við séð að verið er að auka við núverandi rekstrarumfang ráðuneyta upp á um 150 millj. kr. og síðan er verið að bæta í ýmsar stofnanir ríkisins, fjárlagagrunn þeirra, upp á rúman milljarð. Þetta eru ekki heilbrigðisstofnanir eða menntastofnanir, þetta eru sérmerktar stofnanir í fjárlögum íslenska ríkisins og það er vissulega verið að bæta þar í. Ég hélt að áherslurnar lægju annars staðar en þarna.