141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Undir þeim lið sem hér eru greidd atkvæði um eru mörg af þeim verkefnum sem falla undir fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, fjárfestingaráætlun sem haldinn var sérstakur blaðamannafundur um en þegar maður skoðar innihaldið eru þetta minnstu opinberu fjárfestingar í 70 ár. Allan lýðveldistímann hefur íslenska ríkið fjárfest hærra hlutfalli af landsframleiðslu en á við í þessari fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem sérstakur blaðamannafundur var haldinn um.

Nú ber það til tíðinda að formaður fjárlaganefndar kallar án skýringa til 3. umr. einn fjórða af þessari minnstu fjárfestingaráætlun Íslandssögunnar. Bygging húss íslenskra fræða og Náttúruminjasafnið eru um það bil fjórðungur af áætluninni. Og þetta er gert án skýringa þannig að enn frekar dregur nú úr (Forseti hringir.) skrautinu og umbúðunum og kannski ekki síður innihaldinu.