141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:06]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Mig langar að tjá mig um einn lið sem mér finnst vera til fyrirmyndar í þessum hluta, lið nr. 141, um Vatnajökulsþjóðgarð. Þar er um að ræða fyrsta framlag af þremur upp á 290 milljónir hvert til þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri. Skaftárhreppur stendur mjög höllum fæti og þekkingarsetrið á Klaustri verður akkerið sem þarf fyrir heilsársferðaþjónustu á svæðinu, það mun skapa þar heilsársstörf og styrkja rekstur sveitarfélagsins til muna til frambúðar. Þessi ákvörðun er sameiginleg ákvörðun allra sveitarfélaga á Suðurlandi um að þekkingarsetur á Klaustri skyldi vera forgangsmál nr. eitt á öllu svæðinu. Slíka góða samvinnu ber að virða. Hún er til fyrirmyndar fyrir önnur svæði á landinu og fyrir samtök sveitarfélaga í heild sinni.

Þetta er dæmi um hluta af fjárfestingaráætluninni sem er einfaldlega mjög skynsamleg. Þarna er verið að verja fjármunum af skynsemi til að hjálpa svæðum sem eiga sér í raun ekki viðreisnar von af sjálfu sér (Forseti hringir.) og þetta er því góður útgjaldaliður.