141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:10]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég var einn þeirra hv. þingmanna sem sátu í nefnd um grænt hagkerfi undir ágætri forustu hv. þm. Skúla Helgasonar. Þar var unnið að mínu mati merkilegt starf sem einkum miðaði að því að virkja efnahagslífið með jákvæðum hætti til að tryggja að í landinu sé sjálfbær hagvöxtur þannig að ekki sé um of gengið á náttúruauðlindir og að náttúruvernd sé höfð að leiðarljósi um leið og að því markmiði er stefnt að búa til sem mestan hagvöxt. Við lögðum áherslu á að samþætta þetta tvennt.

Virðulegi forseti. Í þeirri vinnu allri gerði ég fyrirvara við þær tillögur sem byggðu á því að veittir yrðu fjármunir úr ríkissjóði til einstakra verkefna. Ég vil taka það fram að gefnu tilefni, og það mun skýra afstöðu mína til þeirra tillagna, að ég var ekki tilbúinn að styðja nein þau verkefni sem lytu til þess að stofnað yrði (Forseti hringir.) til útgjalda úr ríkissjóði vegna þessa. Aftur á móti studdi ég verkefni sem byggðu á því að lækkaðir yrðu skattar og gjöld.