141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessi liður er orðinn langur og athyglisverður en mér finnst áhugavert að heyra þann málflutning að ýmist er talað um gæluverkefni eða að ekki sé gengið nógu langt. Ég ætla að segja fyrir mína parta að ég lít ekki á það sem gæluverkefni að fjárfesta í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Þetta eru þær greinar sem eiga eftir að verða vaxtarbroddar okkar í framtíðinni. Þetta er það sem opinber fjárfesting á að snúast um og þarna held ég að við byggjum á góðu kerfi sem hefur verið byggt upp hér á undanförnum árum. Það er verið að taka stór stökk fram á við.

Þarna verður virðisaukinn til eins og hefur verið sýnt fram á í kortlagningu á þeim hagrænu áhrifum sem skapandi greinar hafa haft í samfélaginu á undanförnum árum þar sem langmestur hluti verður til í einkaframtakinu en byggir á stuðningi ríkis og sveitarfélaga. Ég mundi vanda mig í umræðu um þessa fjárfestingu. Þarna er vaxtarbroddurinn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)