141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:20]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er kallað eftir því í þessari umræðu að við gagnrýnum þá liði sem við viljum sjá forgangsraðað öðruvísi. Þetta er hluti af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem hefur verið farið yfir og hún er innihaldsrýr.

Í þessari fjárfestingaráætlun birtist forgangsröðun þessarar svokölluðu velferðarstjórnar þegar starfsfólk á Landspítalanum þarf að spyrja sig þeirra spurninga hvernig það eigi að reka sjúkrahús sem veitir dýra og mikla þjónustu fyrir æ minni fjármuni, hvernig það eigi að tryggja öryggi sjúklinga í yfirfullum deildum og hvernig eigi að stuðla að framþróun heilbrigðisþjónustunnar. Það kom fram í viðtali við forstjóra Landspítalans að á næstu tveimur árum þurfi að endurnýja tæki fyrir 2–3 milljarða og þá segi ég að forgangsröðunin sé röng hjá þessari svokölluðu velferðarstjórn. Hún er kolröng þegar verið er að fara í það sem ég kalla gæluverkefni, þetta eru ekkert annað en gæluverkefni, (Forseti hringir.) og það er ekki verið að forgangsraða í þágu grunnþjónustu í landinu gagnvart íbúum hér.