141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:23]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði sérstaklega um fjárlagalið sem lýtur að ýmsum tillögum í skýrslu Alþingis um eflingu græna hagkerfisins. Þar voru 50 tillögur sem sérnefnd undir minni forustu lagði til og síðan lagði hv. atvinnuveganefnd til tvær ágætar tillögur í viðbót.

Ég veit að margir tóku eftir að Alþingi bar gæfu til að standa saman um þetta verkefni. Mönnum fannst merkilegt að þegar verið væri að leggja línur um framtíðarþróun í íslensku atvinnulífi gætu menn náð saman um þær tillögur þvert á flokka. Ég vona að öllum þorra þingheims vinnist tækifæri til að standa áfram saman um þetta verkefni. Í þessum fjárlagalið er sérstaklega verið að skapa forsendur fyrir því að íslensk fyrirtæki í öllum atvinnugreinum geti fengið stuðning í formi hagrænna hvata til að þróa með sér og taka upp umhverfisvænar lausnir og vinnubrögð í rekstri sínum.

Ég held að það séu merki um nýja og betri tíma í íslensku atvinnulífi og greiði (Forseti hringir.) stoltur atkvæði með þessum lið.