141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:24]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það væri óskandi að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi stæðu saman í að berjast fyrir grænum áherslum í atvinnulífi. Fáar þjóðir í heiminum eiga jafnmikið undir í umhverfismálum og við, enda byggir verðmætasköpun okkar beint eða óbeint á auðlindum. Þess vegna væri óskandi að allir flokkar á Alþingi gætu staðið saman og verið á græna takkanum núna.

En svo er ekki. Það virðist ekki vera þannig að allir stjórnmálaflokkar átti sig á því að barátta fyrir umhverfisvernd er besta atvinnustefnan í raun og sann. Ef við viljum hugsa um atvinnulíf framtíðarinnar eigum við að gæta að umhverfismálum.

Fyrst Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að hugsa um þessi atriði segi ég glaður: Jafnaðarmenn á Íslandi eru tilbúnir að berjast fyrir atvinnulífi framtíðarinnar. Það munum við gera, standa vörð og vera á græna takkanum núna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)