141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:27]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að afgreiða sóknarfjárlög og þess sér merki í þeim liðum sem við erum nú að greiða atkvæði um. Það er farið fram með aukin framlög til tækni, nýsköpunar og menntamála.

Ég vek sérstaklega athygli á tillögu 02-319 þar sem farið er inn með á fjórða hundrað milljónir í aukin framlög til að styrkja rekstur framhaldsskólanna. Það hefur verið hagrætt mjög í menntakerfinu eftir hrunið og þess sér merki að víða hefur verið farið inn að beini. Nú hafa skapast aðstæður og endurreisn í efnahag ríkisins til að snúa vörn í sókn. Þetta er mikilvægt framlag og að sama skapi er verið að styrkja og efla starfsemi háskóla og velferðarkerfisins.

Ég fagna þessum breytingartillögum sem og öllum þeim anda endurreisnar og sóknar sem einkennir frumvarp til fjárlaga fyrir komandi ár.