141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja að aukningin í Kvikmyndasjóð er eitt af því fáa sem er jákvætt í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er jákvætt vegna þess að þessi atvinnugrein skilar töluvert miklu til samfélagsins. Hún skilar miklum tekjum, miklum umsvifum og mikilli veltu og það er kannski þannig sem hefði átt að horfa á fleiri verkefni sem við erum að setja fjármuni í.

Ég get því miður ekki sagt það sama um marga liði undir nr. 36. Þetta segi ég vegna þess að við verðum að sjálfsögðu að forgangsraða þeim fjármunum sem við erum að veita og reyna að búa til tekjur fyrir samfélagið. Við hefðum betur nýtt þá fjármuni sem þarna eru, sem eru ekki að skila að mínu viti jafnmiklum tekjum og kvikmyndagerðin, í það til dæmis að auka heilbrigðisþjónustuna.