141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég tek undir mikilvægi þess sem sagt hefur verið um Ferðasjóð Íþróttasambands Íslands, sem var á sínum tíma samþykktur af hálfu allra flokka á þingi, og sömuleiðis varðandi uppbyggingu á sérsamböndunum. Ég tel það vera rétt skref. Þó að það hafi verið skiljanlegt á sínum tíma að minnka fjárveitingar í þá átt er engu að síður afar mikilvægt, ekki síst fyrir landsbyggðina, að reyna að jafna aðstæður þeirra sem búa á landsbyggðinni til að stunda íþróttir því að við vitum það að kostnaður þeirra er mun meiri en kostnaður okkar sem búum á suðvesturhorninu.

Það er samt ákveðin kaldhæðni í því að hækkunin er minni en sem nemur t.d. hækkun á aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins, hækkun sem felur m.a. í sér að fræða stjórnsýsluna. Það hefði verið skiljanlegt ef það hefði verið falið í sér fræðslu varðandi jafnréttismál, en svo er ekki. En það er enn eitt dæmið um ranga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Þetta mál er gott eins og önnur mál sem falla undir 40. lið tillögunnar.