141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Íþróttamálin hafa einfaldlega setið á hakanum hjá þessari ríkisstjórn og sætt harðari skerðingu en margir aðrir málaflokkar. Ég get í sjálfu sér tekið undir það með hæstv. menntamálaráðherra að ekki er gott að gera einfaldan samanburð á milli hinna ýmsu liða sem við greiðum atkvæði um. En við hljótum hins vegar að vera sammála um að einstaka liðir sem hér eru greidd atkvæði um verða í framtíðinni að vaxa og endurspegla það traust og það þakklæti sem þingið vill sýna íþróttahreyfingunni í landinu.

Til þess að við getum gert það í framtíðinni, gert betur við íþróttahreyfinguna í landinu, hvort sem það er Íþróttasamband fatlaðra, Ferðasjóðurinn eða Afrekssjóður ÍSÍ eða hvað eina sem hér eru greidd atkvæði um, verður að breyta um efnahagsstefnu þannig að við höfum bolmagn til að gera það og um leið getu til að gera betur í velferðarmálum og öðrum málaflokkum. Þess vegna höfum við, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, staðið hér allt þetta kjörtímabil (Gripið fram í.) og talað um mikilvægi hagvaxtar.