141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það eru háar upphæðir sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi en ég leyfi mér að draga í efa að þar með sé allt upp talið. Ég er mjög hugsi yfir ferlinu öllu saman þegar kemur að fjárveitingum til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og ég held að við verðum að krefjast þess að heildarútgjöldin í málinu öllu verði tekin saman.

Ég hef nefnt sem dæmi um kostnað við aðildarviðræðurnar ferð þingmanna á Alþingi til Strassborgar um daginn á fund þingmanna Evrópusambandsins. Sú ferð var farin beinlínis vegna aðildarviðræðnanna. Ég leita eftir svörum við spurningunum: Er sú ferð inni í tölunni eða er ferðin bókuð sem ferðakostnaður á vegum Alþingis? Ég vil að kannað (Forseti hringir.) verði í ferlinu öllu hvað umsóknin kostar. Ég held að sú tala sé miklu hærri en sú sem var nefnd áðan. (Forseti hringir.) Ég segi nei við þessu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill enn fara fram á það við þingmenn að þeir virði tímamörk. Atkvæðaskýring hefur eina mínútu í ræðutíma.)