141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:11]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem komið hafa fram hjá hv. þingmönnum hvað varðar þennan lið og reyndar einnig varðandi 48. lið. Um 70 millj. kr. falla til vegna þessarar sérstöku skattheimtu. Það er mjög til umhugsunar og má það setja í samhengi við aðra liði.

Við erum búin að greiða atkvæði um að auka fjárframlög til Háskóla Íslands um 104 millj. þegar við vitum að þann skóla vantar miklu meira fé. Setjum það í samhengi; annars vegar 70 millj. vegna þessarar klúðurslegu skattheimtu og hins vegar að tekist hefur að kría út 104 millj. kr. fyrir háskólann þegar við vitum að hann vantar miklu meira. Hefði ekki verið nær að hafa það einhvern veginn öðruvísi?