141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:12]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Undir þessum lið má sjá margt jákvætt fyrir velferð almennings á Íslandi. Ég fagna sérstaklega tveimur atriðum, annars vegar því sem við greiðum hér atkvæði um, lið 54, þ.e. hækkun á framlagi til Íslenskrar ættleiðingar um 25 millj. Það fjármagn gerir hinu lögbundna ættleiðingarfélagi kleift að sinna hlutverki sínu í takt við nútímakröfur og er það í samræmi við áherslu félagshyggjuríkisstjórnarinnar að forgangsraða í þágu barna. Með bættu starfsumhverfi Íslenskrar ættleiðingar geta fleiri börn eignast heimili og fjölskyldur í velferðarsamfélaginu á Íslandi og aukið lífsgæði fjölskyldna um leið.

Sömu barnvænu fagnaðarlætin má nota til að minna á 100 millj. kr. framlag til að greiða niður tannlækningar barna á árinu 2013 sem koma fram í lið 84 í samræmi við langtímaáætlun þar um. Hér er ekki um stórar fjárhæðir að ræða en þær sýna forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og hverju hún fær áorkað við erfiðar fjárhagslegar aðstæður og hversu nauðsynlegt það er að hugmyndafræði félagshyggju og jöfnuðar verði áfram ráðandi á Íslandi í mörg ár. Ég segi já.