141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Hér greiðum við atkvæði um að breyta fjárveitingum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Eins og komið hefur fram var hluta af fjárframlagi til jöfnunarsjóðs veitt til sveitarfélaga sem glímt höfðu við fólksfækkun. Það eru 15 dreifbýlustu sveitarfélögin á landinu.

Breyting var gerð af sitjandi ríkisstjórn og var ákveðið að leggja þá fjármuni sem veittir voru sérstaklega til þessara sveitarfélaga til að bjarga sveitarfélaginu Álftanesi. Með fullri virðingu fyrir mikilvægi þeirrar aðgerðar vöruðu menn við því að það mundi koma niður á hinum dreifbýlu sveitarfélögum. Umhverfis- og samgöngunefnd hafði þessi mál til umfjöllunar fyrir tveimur vikum síðan og kom fram hjá eftirlitsnefnd sveitarfélaga að af 16 sveitarfélögum sem eftirlitsnefndin hefur áhyggjur af voru 12 þeirra sveitarfélög sem þáðu aukaframlag jöfnunarsjóðs.

Ég skora á fjárlaganefnd að taka málið til sérstakrar skoðunar milli 2. og 3. umr. Ég held að það sé gríðarlega brýnt mál og skora á fjárlaganefnd að skoða málið (Forseti hringir.) og fá gesti frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og eftirlitsnefndinni á sinn fund.