141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:31]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hér er gerð tillaga um 170 millj. kr. hækkun til embættis umboðsmanns skuldara. Eins og fram hefur komið er heildarfjárveitingin í þessa stofnun orðin tæpar 1.200 millj. kr. og eru efasemdir uppi um það hversu miklu þetta skilar.

Ég vek líka athygli á því og bið hv. þingmenn að hugleiða það hvernig stofnunin er fjármögnuð. Af framlaginu sem til stofnunarinnar rennur, sem er rúmur milljarður, 1.192 millj. kr., er Íbúðalánasjóði ætlað að greiða rúmar 220 millj. kr. Fjármögnun á embættinu er þannig að ríkissjóður innheimtir tekjur af almenningi í landinu til að leggja inn í umboðsmann, sem kallar síðan á enn frekari útgjöld frá ríkissjóði til Íbúðalánasjóðs. Til viðbótar er Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins einnig ætlað að greiða hluta af rekstri embættisins.