141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:37]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um afar ánægjulegan lið, þ.e. 600 millj. kr. aukningu til tækjakaupa á Landspítala. Í þeim köflum sem við erum að greiða atkvæði um eru líka tækjakaup á öðrum sjúkrahúsum eins og Sjúkrahúsinu á Akureyri sem fær 50 millj. kr., sem er 70% aukning við það sem þar er og talan er miklu hærri hvað Landspítalann varðar.

Mér skilst á fjárlaganefndarfólki sem hefur unnið þetta að hér sé um tæpan milljarð að ræða, núna í því ástandi sem er í ríkisfjármálum, til tækjakaupa í heilbrigðisstofnunum. Ekki veitir af, virðulegi forseti. En ég spyr stjórnarandstæðinga sem hér hafa talað um gæluverkefni: Er þetta eitt af gæluverkefnunum sem stjórnarandstaðan talar um? (Gripið fram í: …á atkvæðatöflunni.) Já, ég sé það og fagna því mjög, en það eru nokkrir hvítir reitir enn þá og ég hvet þá þingmenn til að koma með og samþykkja þetta eins og ýmis önnur góð mál hér. (Forseti hringir.) Mér sýnist miðað við þetta að atkvæðagreiðslan sé að fara að ganga betur en hún hefur gert hingað til.