141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil fagna því að hér eru settir fjármunir í tækjakaup á Landspítalanum. Fyrirspurn sem ég var með fyrr í haust sýndi, svo bara sé tekið dæmi um geislatæki, að tíu sinnum á síðastliðnu þremur árum hefur þurft að senda sjúklinga heim úr geislameðferð vegna þess að tækin hafa staðið á sér eða bilað. — Frú forseti, get ég fengið hljóð í salinn fyrir hv. þm. Álfheiði Ingadóttur?

Mörg þessara tækja eru þannig að það er erfitt að fá í þau varahluti og erfitt að halda þeim gangandi. Ég fagna því að hér sé verið að veita fjármuni til tækjakaupa, en bendi hins vegar á að meiri fjármuni þarf til. Ég vil skora á fjárlaganefnd að skoða þetta mál milli 2. og 3. umr., skoða heilbrigðiskerfið og fjárveitingar sem þarf að veita þar inn og skoða til að mynda tillögu um náttúruminjasýningu, sem var dregin til baka til 3. umr., og veita þá fjármuni frekar til aukinna tækjakaupa eða til (Forseti hringir.) Landspítala – háskólasjúkrahúss eða heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið.