141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:41]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þeir fjármunir sem nú eru lagðir í aukin tækjakaup til handa Landspítalanum sýna forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Uppsöfnuð þörf er heilmikil og í raun vantar meiri fjármuni til að viðunandi sé fyrir þessar mikilvægu heilbrigðisstofnanir landsins í Reykjavík og á Akureyri. Hér er ekki um nein gæluverkefni að ræða eins og einn hv. stjórnarliði nefndi hér. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því á undangengnum mánuðum að bæta þurfi tækjakost Landspítalans. Það höfum við gert eftir að hafa heyrt fjölmargar reynslusögur úr heilbrigðiskerfinu. Það er því með mikilli gleði sem ég segi já við þessari aukafjárveitingu, en ég skora á fjárlaganefnd að fara betur yfir þessi mál og skoða hvort ekki þurfi að bæta enn frekar í vegna þess ástands sem ríkir í heilbrigðismálum. Við þurfum að búa sómasamlega að heilbrigðiskerfinu okkar, þ.e. ef við viljum hafa það áfram í fremstu röð í heiminum.