141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:45]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hér er um að ræða tiltekinn hluta fjárveitingar sem þarf að fara inn á fjárlagalið 08-501. Það er óskiljanlegt af hverju ekki er ætluð fjárveiting til a.m.k. tveggja skriflegra samninga sem renna út um næstu áramót, þrátt fyrir ábendingar þar um. Það er vitað mál að óhjákvæmilegt er að bæta þar í og þetta er einn sá póstur sem á eflaust eftir að koma til útgjalda fyrir 3. umr. og bætir þar í þann sekk sem óðum fyllist af óskum um viðbótarfjárveitingar.

Það er engin ástæða til að gera lítið úr þeim þætti sem hér er undir þó svo að þetta sé ekki ýkjastór fjárveiting eða upp á 45 millj. kr., heildarpakki ekki hærri en 850 millj. kr. Þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu landsins og ekki einungis á höfuðborgarsvæðinu þó svo að eingöngu sé ætlað til að fullnusta þann samning sem þar rennur út.