141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það vantaði heilmikið í ræðuna hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller um það hvernig verð á húshitunarkostnaði hefur hækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig þegar kemur að því að jafna búsetuskilyrði fólks á hinum köldu svæðum á við skilyrði þeirra sem hafa aðgang að heitu vatni.

Vissulega er rétt að hér eru settar 175 millj. kr. í þennan málaflokk. En það er einungis þriðjungurinn af því sem það hefði þurft að vera. Það er einfaldlega ekki nægjanlegur árangur miðað við þau digurbarkalegu loforð sem ríkisstjórnin hefur viðhaft um jöfnun á húshitunarkostnaði og búsetuskilyrða fólks á þessum svæðum. Þess vegna komum við hingað upp framsóknarmenn og mótmælum því að ekki skuli vera gengið lengra í þá átt að jafna búsetuskilyrðin. Hér er alls ekki nægilega langt gengið.