141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er nú meiri sýndarmennskutillagan. Það sem hefur gerst á þessu kjörtímabili í niðurgreiðslum til húshitunarkostnaðar er að búið er að lækka þær að raungildi um 530 millj. kr. Það er ígildi þess að þeir sem búa á þessum köldu svæðum hafi borgað til viðbótar í húshitunarkostnaði sínum sem svarar kannski tveimur til þremur mánuðum. Það er reikningurinn sem fólkið hefur fengið, viðbótarreikningur upp á tveggja til þriggja mánaða húshitunarkostnað.

Síðan vorum við að afgreiða áðan tillögu sem felur í sér að fyrirtækin sem þjóna þessu svæði eiga að borga 370 millj. kr. í arðgreiðslu til ríkisins, sem er tvöfalt hærri upphæð en hér er lögð til í auknar niðurgreiðslur. Það er búið að taka til baka tvöfalt það sem lagt er til til að lækka húshitunarkostnaðinn. Þetta er þvílík sýndarmennska, en lýsir hins vegar mjög vel því sem hæstv. ríkisstjórn stendur fyrir. Ég ætla þó að styðja þetta til að lágmarka þann kostnað sem fólkið sem býr við þessi erfiðu skilyrði (Forseti hringir.) verður fyrir vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar og m.a. stjórnarliða af þessum svæðum (Forseti hringir.) sem voru að ákveða þessar arðgreiðslur fyrir nokkrum klukkustundum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða ræðutíma.)