141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:00]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Í rökstuðningi með þessari tillögu kemur fram að verið sé að bregðast við tillögum starfshóps um að koma upp sérstökum jöfnunarsjóði til húshitunar með raforku, sambærilegum jöfnunarsjóði og viðgengst með olíuvörur sem gerir að verkum að bensín kostar nánast það sama í Reykjavík, Patreksfirði, Djúpavogi og á Höfn í Hornafirði, svo dæmi séu tekin.

Síðan er sagt að skrefið sem hér er verið að stíga sé í þá átt að koma upp slíkum jöfnunarsjóði. Það er einfaldlega rangt. Það er ekkert því til fyrirstöðu að koma honum upp. Framsóknarflokkurinn flutti um það tillögur á síðasta þingi og hefur gert það aftur á þessu þingi. Það er ekkert því til fyrirstöðu. Það er þegar lagður skattur á raforkuna. Það þarf að koma upp þessum jöfnunarsjóði. Það eina sem virðist vanta er pólitískur vilji. Og ég kalla eftir því að við þingmenn tökum okkur saman (Forseti hringir.) og komum þessu máli í gegn því að þá náum við fullri jöfnun á raforkukostnaði í landinu.