141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:02]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Allar ferðir hefjast á einu skrefi, það er aldrei hægt að taka meira en eitt skref í einu. (Gripið fram í.) Það skref getur verið misstórt. Það skref sem hér er tekið nær a.m.k. 40% af þeirri þörf sem nefndin um lækkun húshitunarkostnaðar taldi að væri til staðar fyrir aðgerðir til lækkunar húshitunarkostnaðar.

175 millj. kr. til niðurgreiðslu á húshitun íbúðarhúsnæðis mun koma til gagns fyrir íbúa á köldum svæðum þar sem mismunun hvað þetta varðar er mjög mikil núna. Það vekur auðvitað athygli að núna skuli verið að stíga þetta skref eftir óbreytt ástand frá árinu 2003, sem var eitt mesta góðæris- og þenslutímabil í efnahagssögu okkar Íslendinga. Þá var ekki hægt að stíga þetta skref, en nú er hægt að fussa og sveia yfir þessum 175 millj. kr. [Frammíköll í þingsal.] sem koma í kjölfar efnahagshruns og þeirra tiltekta sem menn hafa þurft að standa í eftir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. (Gripið fram í.)