141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um nokkra liði, m.a. um aukningu á útgjöldum til Fjármálaeftirlitsins en það tengist að vísu öðrum lögum sem ekki er einu sinni búið að tala fyrir. Ég vek athygli á því að framlög til Fjármálaeftirlitsins hafa rúmlega þrefaldast frá árinu 2007. Íslenska bankakerfið er um 3% af danska bankakerfinu, en íslenska fjármálaeftirlitið er nærri því helmingur af danska eftirlitinu. Samt sem áður hefur augljóslega ekki gengið mjög vel í neytendavernd á fjármálamarkaði hér þrátt fyrir þessa gríðarlega stóru stofnun. Það hefur komið fram að hún hefur ekki einu sinni eftirlit með slitastjórnum þrátt fyrir að henni beri lögum samkvæmt skylda til þess.

Í fyrra, á kynningu um stofnunina, tókum við eftir nokkru sem ég hef aldrei séð á neinni stofnun, það voru gjafir og risna til starfsmanna fyrir um 7 millj. kr. — 55 þús. kr. á hvern starfsmann. Það er ekki sama (Forseti hringir.) útgjöld og árangur og við verðum að skoða þessa hluti betur.