141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:21]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hér er um skynsamlega forgangsröðun að ræða. Þetta er einhver fegursta sveit landsins og virkjun þar mundi passa mjög illa inn í landslagið. (Gripið fram í.) Hv. þm. Jón Gunnarsson á sínum kraftvélum vill að sjálfsögðu fara um það og eyðileggja eins mikið og hann mögulega getur, (Gripið fram í.) en það er til eftirbreytni hvernig forgangsraðað er upp á nýtt í þessu samfélagi.

Virkjun á þessu svæði sem yrði fjarstýrt mundi ekki skapa nokkur einustu störf. Hún mundi skapa örfá störf meðan á byggingu virkjunarinnar stendur, en mundi eyðileggja gríðarlega fallegt heildstætt landsvæði í anddyri Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég lýsi enn einu sinni eftir því hvar sjálfstæðismenn allir standa í umhverfismálum. (Forseti hringir.) Það eina sem hefur komið fram hjá þeim er að þeir vilja eyðileggja íslenska náttúru (RR: Skammastu þín, Þór Saari.) eins mikið og þeir mögulega geta.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð og minnir á að hér er um atkvæðaskýringu að ræða, en ekki umræður.)