141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram í haust var gert ráð fyrir að vaxtagjöld ríkissjóðs næmu um 88,1 milljarði kr. Nú fyrir 2. umr. lækkuðu þessi vaxtagjöld um 4,1 milljarð kr., sem er svipað fjárframlagi til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Skuldsetning ríkissjóðs nemur um 95% af landsframleiðslu og þessi ríkisstjórn setti sér það markmið árið 2009 að ná henni niður í um 60%.

Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að auka lántökur enn frekar. Hérna er kominn stærsti vandi íslensku þjóðarinnar. Það að þurfa að greiða svo gríðarlega há vaxtagjöld og vera með svona hátt lánshlutfall gerir að verkum að ekki er hægt að setja jafnmikla peninga og (Forseti hringir.) menn vildu í velferðarkerfi þjóðarinnar.