141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil vekja athygli á því að við erum að greiða atkvæði um liði sem falla undir sölu eignarhluta í húsnæði. Það er alltaf athyglisvert að lesa 6. gr. heimildir fjárlaga hverju sinni og þessi tiltekna 6. gr. heimild endurspeglar brostin fyrirheit og svikin loforð af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, sérstaklega Samfylkingarinnar sem leiddi það verkefni að leggja niður alla starfsemi í St. Jósefsspítala. Í dag er þetta allt að því draugahús. Það er enginn metnaður af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, hvorki hér né heima í Hafnarfirði við að leysa það verkefni að finna byggingunni verðugt verkefni fyrir bæjarbúa eða hið opinbera í heild sinni. Mér finnst þetta endurspegla að allt það sem sérstaklega Samfylkingin sagði varðandi St. Jósefsspítala hefur verið svikið.