141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vek athygli á því að í yfirskrift 6. gr. heimildar fjárlaga stendur, með leyfi forseta:

„Liggi fyrir að útgjöld við nýtingu einstakra heimilda samkvæmt greininni fari umfram fjárheimild 09-481 […] og ekki er gert ráð fyrir útgjöldunum á öðrum liðum fjárlaga“ þá beri að fara með málið fyrir fjárlaganefnd áður en ákvörðun er tekin í málinu.

Á þeim lið í fjárlögunum eru 320 millj. kr. Hér er verið að óska eftir heimildarákvæði upp á 500 millj. kr. sem strax brýtur þann múr og til viðbótar ber að geta þess að þessi sjóður hefur ekki kennitölu, hann hefur ekki samþykktir og menn vita í rauninni ekkert út á hvað hann gengur. Það er kannski ástæðan fyrir því að hann er ekki tilgreindur í yfirliti um fyrirtæki og sjóði í C-hluta sem var afgreitt áðan.