141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[15:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að umræða um stöðu Íbúðalánasjóðs kemst hér að vegna þess að við okkur blasir mikill vandi. Annars vegar er það vandi sem er til kominn af afskriftaþörf sem Íbúðalánasjóður hefur haft í kjölfar þess að verð fasteigna hefur lækkað og skuldastaða margra þeirra sem skulda sjóðnum hefur versnað sömuleiðis og hins vegar vegna þess að sjóðurinn hefur að því er virðist stefnt í langan tíma í ákveðinn uppgreiðsluvanda. Ég ætla að koma inn á þetta hvort tveggja.

Árið 2006 var óskað eftir því að Ríkisendurskoðun tæki út áhættuna af því að ríkissjóður mundi í framtíðinni lenda í ábyrgðum fyrir Íbúðalánasjóð. Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu á árinu 2006 að það væri ólíklegt að á ríkisábyrgðina mundi reyna. Ég vek athygli á því að þetta er sem sagt eftir að lagabreytingin var gerð árið 2004, en Ríkisendurskoðun benti engu að síður á að ef vextir í landinu mundu lækka mikið gæti reynt á þessa uppgreiðsluáhættu. Allt frá þessum tíma hefur reglulega verið spurt um það á þinginu hver staða sjóðsins væri með tilliti til ríkisábyrgðarinnar og eiginfjárþarfar sjóðsins.

Á árinu 2010 varð félagsmálaráðherra fyrir svörum í þinginu og gerði grein fyrir því að í viðskipta- og rekstraráætlun Íbúðalánasjóðs fyrir árin 2011–2013 væri gert ráð fyrir því að eigið fé sjóðsins mundi halda áfram að lækka ef ekkert yrði að gert. Staðan um mitt ár 2010 var því sú að ráðherrann mat það svo að það þyrfti 22 milljarða til að koma eiginfjárhlutfallinu upp í 5% eins og það á að vera samkvæmt reglugerð. Síðar þyrftu að koma til 2 milljarðar til viðbótar til að halda eiginfjárhlutfallinu í þessum 5% til ársins 2013.

Hvað hefur komið á daginn síðan félagsmálaráðherra tjáði sig svona árið 2010? Ja, það hefur komið á daginn að þarna var um að ræða vanmat upp á 24 milljarða. En jafnvel þótt við höfum sett 24 milljarða umfram þetta, þ.e. 46 milljarða, inn í Íbúðalánasjóð erum við samt bara með eiginfjárhlutfallið í 3%.

Þetta gefur tilefni til þess að við spyrjum á þinginu: Hvaða vanmat var það á árinu 2010 sem leiddi til þessarar hörmulegu niðurstöðu? Var það mikið ofmat á eignum eða vanmat á vandanum á einhverjum öðrum sviðum? Hvers vegna stöndum við nú frammi fyrir 46 milljarða framlagi inn í sjóðinn og hann er enn þá einungis með 3% eiginfjárhlutfall?

Hin stóra spurningin sem við verðum að bera hér upp er þessi: Hvernig hyggst ráðherrann bregðast við uppgreiðsluvandanum? Íbúðalánasjóður er líklega skuldsettasta fjármálastofnun landsins sem starfar með jafnstórt eignasafn og hér er undir. Við erum með Íbúðalánasjóð í rétt um 3% eiginfjárhlutfalli og hann hefur ríkisábyrgð. Staðan er einfaldlega sú að markaðsvirði þeirra krafna sem eru úti á markaðnum gegn sjóðnum er um 200 milljörðum hærra en eignir sjóðsins standa undir. Þess vegna verðum við að velta upp eftirfarandi spurningum í þinginu nú þegar: Hvaða líkur eru á því í dag að það muni í náinni framtíð reyna á þessa ríkisábyrgð? Hvað getum við gert í dag til þess að lágmarka áhættu almennings af rekstri sjóðsins?

Hvert er inntak ríkisábyrgðarinnar? er líka lykilspurning í þessu. Er ríkisábyrgðin þess eðlis að ríkið yfirtaki skuldbindingar samkvæmt upphaflegum skilmálum lána en ekki bara höfuðstól með áföllnum vöxtum? Er inntak ríkisábyrgðarinnar upphaflegir skilmálar um greiðsluflæði langt inn í framtíðina eða bara höfuðstóllinn með áföllnum vöxtum? Hver yrðu áhrifin á lánshæfi ríkissjóðs ef til þess kæmi að sjóðurinn gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum?

Þriðja stóra álitaefnið blasir auðvitað við og það er þetta: Hver er framtíð Íbúðalánasjóðs við þær aðstæður að viðskiptavinir sjóðsins koma í dag til þess fyrst og fremst til að greiða upp lán og leita síðan á önnur mið til að fjármagna fasteignakaup sín?

Það er mjög stór spurning sem við hljótum að þurfa að staldra við hér í dag í ljósi áhættunnar af rekstrinum, í ljósi ríkisábyrgðarinnar, í ljósi þess að menn hafa hér vanmetið einungis á síðustu (Forseti hringir.) tveimur árum fjárþörf sjóðsins um 24 milljarða og eru þó ekki enn þá einu sinni komnir upp í 5% (Forseti hringir.) lágmarkseiginfjárhlutfall.