141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[15:46]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Það er ágætt að ræða þetta brýna mál. Það vill þannig til að ég stýrði Ríkisábyrgðasjóði á þeim tíma þegar fjármögnun sjóðsins var breytt árið 2004. Vandræði sjóðsins í dag má skrifa nánast eingöngu og alfarið á stjórnendur sjóðsins á þeim tíma, þeir gerðu gróf mistök í starfi og fyrir það eru skattgreiðendur að greiða í dag. Skiptin yfir í HFF-bréfin árið 2004 eru rót mistakanna. Það stóð til að Íbúðalánasjóður héldi eftir um 40% af eldri húsbréfum til að geta innkallað þau ef til uppgreiðslna kæmi en í staðinn ákvað Íbúðalánasjóður að halda eftir eingöngu um 15% af bréfunum sem gerði hann algjörlega óvarinn fyrir uppgreiðslum. Þetta var gert að ráðleggingu Deutsche Bank sem hafði fjárhagslega hagsmuni af því að sem mestu væri skipt. Þetta vissu menn allan tímann.

Íbúðalánasjóður setti sér áhættustýringarstefnu í kjölfarið en henni var haldið leyndri fyrir fjármálaráðuneytinu og Ríkisábyrgðasjóði í hálft ár. Þegar hún loksins leit dagsins ljós var hún svo glórulaus að það var einboðið að Íbúðalánasjóður færi á hausinn. Fjárhagsnefnd Íbúðalánasjóðs, sem sá um áhættustýringuna, var eingöngu skipuð starfsfólki Íbúðalánasjóðs.

Í kjölfarið á þessu öllu krafðist Ríkisábyrgðasjóður hlutlausrar úttektar á sjóðnum en bæði félagsmálaráðuneytið, sem var yfir sjóðnum á þeim tíma, þáverandi félagsmálaráðherra og Íbúðalánasjóður sjálfur lögðust gegn því. Það var rekistefna með málið fram eftir ári 2005 og fyrir fjárlögin árið 2006 mælti Ríkisábyrgðasjóður ekki með því að Íbúðalánasjóður fengi frekari ábyrgðir á lántökur. Við því var ekki orðið, fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins varð ekki við þeim óskum eða ráðleggingum og ekki heldur sú ríkisstjórn sem þá var við völd, heldur hélt þessi glórulausa óráðsía áfram. Því erum við þar í dag sem við erum. (Forseti hringir.) Í seinni hluta ræðu minnar mun ég fara yfir flokkapólitíkina (Forseti hringir.) sem spilaði hér stærstan hluta …