141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[15:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Það hefur lengi legið fyrir að vandi Íbúðalánasjóðs væri umtalsverður. Í kjölfar þess að við lögðum 33 milljarða framlag í sjóðinn í árslok 2010 var samþykkt þingsályktunartillaga mín um rannsókn á sjóðnum þar sem meðal annars átti að fara yfir veitingar á lánum til byggingarverktaka og breytingar yfir í óuppgreiðanleg skuldabréf.

Hv. þm. Þór Saari fór hér ágætlega yfir hluta af þeirri sorgarsögu sem væntanlega mun koma í ljós þegar niðurstöður þessarar rannsóknar liggja fyrir í upphafi næsta árs. Við getum þá farið yfir hana nánar. En núna eigum við í vanda í bæði bráð og lengd, m.a. vanskil og vandræði með fullnustueignir enda fengu menn að byggja óhindrað án þess að fyrir lægi þörf fyrir húsnæði á viðkomandi svæðum. Stóru vandamálin eru hins vegar uppgreiðsluáhættan, sem hefur nú virkjast vegna lágra vaxta og hefur gert áður með ófyrirséðum afleiðingum, og ríkisábyrgðin.

Verkefni okkar á næstu árum verður að fara yfir skipulag sjóðsins samhliða frekari vinnu í anda nýrrar húsnæðisstefnu. Við þurfum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort það sé eðlilegt að vera með ríkisábyrgð á veðlánum til húsnæðiskaupa en slík lán eru almennt talin öruggustu lán sem hægt er að veita, og við þurfum líka að spyrja okkur hvort það sé hægt að byggja upp heilbrigt bankakerfi sem ekki sé með íbúðalán sem umtalsverðan hluta af lánasafni sínu. Á sama tíma þurfum við að tryggja fjárveitingar til húsnæðis í þágu þeirra sem eiga erfitt með að afla sér húsnæðis og tryggja lánveitingar til landsbyggðarinnar (Forseti hringir.) þar sem oft er erfitt að fá lán þar sem markaðsverð á húsnæði er langt undir (Forseti hringir.) byggingarkostnaði.