141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[15:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Menn ræða hér Íbúðalánasjóð og það er gott að taka þá umræðu og mikilvægt að við förum vel yfir sjóðinn. Við skulum líta til baka. Þegar breytingin var gerð 2004 var það vegna þess að verkamannaíbúðakerfið var komið í þrot. Í öðru lagi gekk húsbréfakerfið svokallaða, sem kennt er gjarnan við Jóhönnu Sigurðardóttur, ekki upp vegna þess að þeir sem voru að sýsla með þau bréf, við sem vorum að kaupa okkur húsnæði og aðrir sem áttu þessi bréf, töpuðu á þeim. Það voru afföll af þeim, 700 þúsund, 800 þúsund og jafnvel yfir milljón sem menn töpuðu á verslun með þessi bréf. Þess vegna fóru menn í að breyta þessu.

Það var alveg kristaltært að það var varað við ákveðnum hlutum 2004. Við skulum alveg hafa það á hreinu. Hins vegar var líka mælt með því að þessi leið yrði farin. Og hvers vegna var mælt með því? Vegna þess að þessir pappírar án uppgreiðsluheimildar voru betri söluvara á markaði sem þýddi að menn fengu betri kjör og gátu lánað með lægri vöxtum. Það sem hins vegar gerðist og var kannski fyrirséð, ég veit það ekki, er að bankarnir lögðu til atlögu við Íbúðalánasjóð. Þeir lögðu til atlögu þannig að á fyrstu þremur mánuðum eftir þessa breytingu voru greidd upp lán fyrir um 100 milljarða. Þegar upp var staðið voru þetta 300 milljarðar. Og hvernig var það gert? Það var gert með því að bankarnir niðurgreiddu sína vexti.

Það er nákvæmlega það sem bankarnir eru að gera í dag með ríkisábyrgð, reyndar yfirlýsingu um ríkisábyrgð. Á sparifé landsmanna í dag eru bankarnir aftur að niðurgreiða vexti, nú á óverðtryggðum lánum, sem gerir það að verkum að sjóðurinn er í vanda.

Við skulum líka hafa alveg á hreinu að Íbúðalánasjóður hefur félagslegt hlutverk í dag en hann hefur líka hlutverk á hinum almenna markaði. Munurinn á sjóðnum þá og í dag er sá að hann var með þak á sínum útlánum, ef ég man rétt lánaði hann árið 2006 ekki yfir 20 milljónir til hverrar eignar og það var með 90% láni þannig að menn gátu ekki keypt sér 100 og 200 millj. kr. húsnæði sem marga langar greinilega til, heldur voru menn bundnir af stærð lánsins. Það að sjóðurinn hafi skapað einhverja þenslu og valdið vanda á húsnæðismarkaði er kolrangt. Vandinn er engu að síður til staðar og það verður að sjálfsögðu að leysa hann. (Forseti hringir.) Menn mega ekki gleyma því að það er búið að setja hundruð milljarða inn í fjármálastofnanir og tryggingafélög á Íslandi í dag (Forseti hringir.) og það er ekkert skrýtið að það þurfi einnig að gera við Íbúðalánasjóð.