141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[16:03]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og þau innlegg sem hér hafa komið þó að ég hefði þau orð uppi í byrjun að ég vonaði að menn færu ekki í þetta pólitíska karp. Menn verða bara að horfast í augu við það sem gerðist. Það er rannsókn í gangi sem mun upplýsa um hlutina. Það verður líka skoðað og kemur fram í IFS-skýrslunni hvað hefur gerst síðan Samfylkingin kom að borðinu 2007.

Það sem mér finnst skipta miklu máli er að við áttum okkur á því að við erum með Íbúðalánasjóð sem við viljum halda, hann hefur ákveðið hlutverk, hann á að gæta öryggis og jafnréttis varðandi íbúðalán. Það á að hjálpa fólki að eignast þak yfir höfuðið á viðráðanlegum kjörum. Í viðbót höfum við unnið sameiginlega þverpólitíska húsnæðisstefnu þar sem tekið var á þó nokkuð mörgum þáttum. Meðal annars var ákveðið að reyna að vinna að því að jafna stöðu á milli eignar- og leiguíbúða, þ.e. þeirra sem eiga eignir og þeirra sem eru í leigu. Þar var rætt líka um lagaumhverfi sem er enn í vinnslu. Það er talað um að það þurfi að vinna húsnæðisáætlanir vegna þess að hluti af því sem gerðist á höfuðborgarsvæðinu var að öll sveitarfélögin voru að byggja til áratuga.

Við höfum ákveðið að koma á húsnæðisbótum, við höfum ákveðið að koma á leigufélagi til að jafna stöðuna, efla upplýsingagjöf o.s.frv. Þessu til viðbótar var sú vinna sem ég ræddi um áðan sem leiddi til þess að settir voru 13 milljarðar inn í sjóðinn til að tryggja að lágmarki 3% eiginfjárhlutfall. Þá var farið yfir nokkur atriði, þ.e. að bæta innheimtuferla sjóðsins með það í huga að reyna að hjálpa skuldurum að koma lánunum sínum í skil, að stofna fullnustueignafélag um eignir sjóðsins og um leið leigufélag. Þar var rætt um að efla áhættustýringuna og síðan var skipaður sérstakur hópur sem á að fara yfir framtíðarsýnina og það framtíðarhlutverk sem hér hefur verið rætt um þar sem mótuð verður stefna til lengri tíma.

Við megum þó ekki gleyma því (Forseti hringir.) að það er ekki nema ár síðan við settum lög þar sem var rammað inn og komið til móts við kröfur ESA og (Forseti hringir.) búinn til lagarammi í kringum Íbúðalánasjóð. (Forseti hringir.) Ég vona að okkur farnist vel í að leysa mál sjóðsins. (Forseti hringir.) Það skiptir máli fyrir samfélagið.