141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:32]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir þessa athugasemd. Ég held að það sé verulegt áhyggjuefni að við sjáum fram á að svona tímabundnir skattar verði festir í lög. Það er ekkert einsdæmi. Við vitum það. Þetta er ekki að gerast í fyrsta skipti og það er mikið áhyggjuefni. Hv. þingmaður kom aðeins inn á hækkun á áfengisgjaldi. Við sjáum líka mjög mikil jaðaráhrif af þeirri skattheimtu sem hefur verið boðuð bæði í þessu frumvarpi, bandorminum, og svo í fjárlagafrumvarpinu. Jaðaráhrifin af áfengisgjaldinu virðast vera þau að framleiðslan og salan hafa færst út fyrir verslanir ÁTVR og í rauninni inn á svarta markaðinn. Kannanir benda til að nú séu um 33% sem sækja sér áfengi annars staðar en hjá ÁTVR og þá erum við að tala um landa og heimabrugg. Ég held að sé verulegt áhyggjuefni. Þar er aðallega talað um að ungt fólk og þeir efnaminni sæki í þá leið til að verða sér út um áfengi. Við vitum ekkert hverjar afleiðingarnar af því verða, þær kunna að vera mjög slæmar. Ég held að menn verði að huga að áhrifunum þótt þeim gangi kannski gott til. Ég efast ekkert um að þessari ríkisstjórn gangi gott til, hún má alveg eiga það, við höfum bara mismunandi áherslur. Ég mundi alla vega skoða þau mál niður í kjölinn áður en ég færi að leggja til slíka skattheimtu.