141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar ég fer yfir fjárlagafrumvarpið á ég á erfitt með að taka undir það að þessari ríkisstjórn geti gengið gott eitt til. Þær áherslur sem eru efstar og í forgrunni hafa alla vega slæmar afleiðingar, svo mikið er víst. Hér erum við að ræða bandorm um ráðstafanir í ríkisfjármálum, tekjuöflunaraðgerðir sem endurspegla enn og aftur þá röngu vegferð sem þessi ríkisstjórn er á, að mínu mati.

Vandamálið er nefnilega röng leið til tekjuöflunar. Við vorum að ræða og afgreiða fjárlagafrumvarpið eftir 2. umr. í þinginu áðan og þar var farið yfir fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem menn úr ríkisstjórnarflokkunum rómuðu mjög. Nýsköpun, græna hagkerfið og nokkur skyld mál sem öll eiga það sammerkt varðandi uppbyggingu í atvinnu að þurfa styrki, þurfa framlög úr ríkissjóði til þess að ná að dafna. Ég er ekki á móti því í sjálfu sér. Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir okkur að geta eflt nýsköpun og stuðlað að fjölbreyttara atvinnulífi í landinu. Grundvöllurinn að því er að við sköpum sjálfbjarga greinum í atvinnulífinu tækifæri, að við greiðum leið fyrir beinni erlendri fjárfestingu, að við sköpum sátt í sjávarútvegi og grunnatvinnugreinum okkar þannig að þær geti skilað okkur sem mestu til samfélagsins.

Virðulegi forseti, ef sú leið hefði verið farin í byrjun þessa kjörtímabils að standa með þessum greinum þá þyrftum við ekki að fara í gegnum enn eina fjárlagagerðina þar sem verið er að leita logandi ljósi að nýjum möguleikum til að auka álögur á fólkið í landinu og atvinnulífið í landinu. Standa við stóru orðin sem voru í sáttmálanum sem gerður var við aðila vinnumarkaðarins, sem meira og minna hefur verið svikinn. Þau svik hafa valdið miklum vonbrigðum, ekki bara hjá okkur í stjórnarandstöðunni heldur hjá fólkinu í landinu, hjá þeim sem skipa samtök atvinnurekenda og launþega í landinu.

Þetta eru stóru mistökin í áherslunum sem þessi ríkisstjórn hefur haft. Þau eru að hitta okkur fyrir enn og aftur og er ekki séð fyrir endann á því hverjar afleiðingarnar verða. Því umhverfið breytist og það er alveg ljóst að það umhverfi sem við erum að fara inn í, til dæmis gagnvart því að fá til okkar beina erlenda fjárfestingu og njóta öflugs sjávarútvegs — þær aðstæður sem eru að skapast á mörkuðum okkar eru miklu ólíklegri til að við sjáum á næstu missirum og árum þann góða gang og þá möguleika sem við höfum verið að horfa upp á á undanförnum árum.

Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði við umræðuna í gær að velferð mundi skerðast ef við lækkuðum skatta. Ég er algjörlega ósammála því. Það hlýtur að vera aukin velferð fólgin í því að við eflum atvinnulífið. Eyðum atvinnuleysi, aukum verðmætasköpun í samfélaginu og hlúum að uppbyggingu öflugs atvinnulífs sem skilar fólkinu í landinu auknum tekjumöguleikum, gefur ríkissjóði meiri tekjur. Þá getum við lækkað álögur á fólkið og aukið ráðstöfunartekjur heimilanna.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður meinti þetta svona en ég skildi það sem hann sagði svona. Það er ekki nema von að staðan sé eins og hún er, ef fólk í meiri hlutanum trúir þessu, að þetta sé staðreynd. Hún er í raun ógeðfelld, þessi jólasaga sem er endurtekin á aðventunni ár eftir ár. Það má segja að ljósin í bænum séu slökkt. Fólk er farið að slökkva hjá sér. Fyrirtækin eru farin að slökkva. Atvinnugreinarnar eru farnar að slökkva vegna þess að enginn veit hvar skrímslið, sem þessi ríkisstjórnarmynd er þegar kemur að skattamálum, ber niður næst. Nú sjáum við að ljósin hafa verið kveikt til að mynda hjá ferðaþjónustunni. Þar er ríkisstjórnin mætt á tröppurnar með sinn jólaglaðning þetta árið.

Virðulegi forseti. Það er áhugavert í þessu sambandi að rifja upp yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga þann 5. maí 2011. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Markmiðum um auknar fjárfestingar á næstu árum verður ekki náð nema með verulegu átaki í fjárfestingum fyrirtækja. Stjórnvöld vilja greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum.“

Þar segir enn frekar, með leyfi forseta:

„Lögð er áhersla á að fjárfestingar í virkjunum og gerð raforkusamninga verði á viðskiptalegum grundvelli og taki tilliti til umhverfisgæða. […] Rammaáætlun verður lögð fram á næstu vikum og fer í viðeigandi ferli. Stjórnvöld stefna að því að hún verði afgreidd á næsta haustþingi.“ Það hefði þá verið fyrir rúmu ári.

Á sama stað segir:

„Ljóst er að áhugi erlendra aðila á nýfjárfestingum sem byggja á nýtingu innlendrar orku er mikill. Landsvirkjun mun halda áfram umfangsmiklum rannsóknum í Þingeyjarsýslum og á nú þegar í viðræðum við nokkra aðila um fjárfestingar og orkukaup. […] Þess er fastlega vænst að samningar takist fyrir lok þessa árs um í það minnsta tvö umtalsverð fjárfestingarverkefni […] og að framkvæmdir við þau geti hafist þegar á næsta ári.“ Sem sagt þegar á þessu ári, sem er um það bil að verða liðið og ekkert hefur sést af þessum fyrirheitum. Þarna liggur vandamálið. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið við hin fögru fyrirheit og í því eru vonbrigðin fólgin.

Í stað þess mætir hún eina ferðina enn með glaðninginn á aðventunni og nú skal tekin sú atvinnugrein sem kannski hefur verið í hvað mestum blóma frá hruni og miklar vonir eru bundnar við, sem er ferðaþjónustan. Henni hefur gengið vel, ferðamönnum hefur fjölgað mikið, það er margt sem hefur lagst á árarnar með okkur í því. Það hefur verið ánægjulegt að sjá þessa grein dafna og sjá þá bjartsýni sem hefur ríkt þar. Þær fjárfestingar sem hafa verið í pípunum hafa verið í gangi og eru í pípunum.

En nú mætti draugurinn, ríkisstjórnin, á tröppurnar hjá ferðaþjónustunni, hringdi bjöllunni og kom með jólaglaðninginn. Nú á að leggja auknar álögur á þessa atvinnugrein þrátt fyrir öll hin fögru fyrirheit. Við sjáum afleiðingarnar nú þegar blasa við okkur. Það hefur verið vandlega farið yfir þær í umræðu um þessi mál hér á þinginu og í meðförum þingsins. Það liggur þegar fyrir að á nokkrum stöðum hafa menn hætt við að byggja hótel eða gistirými um allt land og menn eiga í miklum erfiðleikum með að verðleggja þjónustu sína á erlendum mörkuðum. Það er alveg ljóst að þetta er að hitta okkur í bakið og það hefur verið sýnt fram á með útreikningum að væntanlega muni þetta draga það mikið úr tekjum frá því sem áður var að þeir skattpeningar sem verið er að reyna að ná í munu tapast, og meira en það.

Þetta stendur í 1. gr. þessa frumvarps. Í 2. gr. er verið að framlengja ákvæði um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við framkvæmdir á íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði. Það er jákvætt að við skulum vera að framlengja þetta ákvæði. Það er þó eitt sem ég vil benda á í þessu sambandi. Þetta nær til einstaklinga, þeirra sem eru að byggja frístundahúsnæði og íbúðarhúsnæði, einnig til húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga og stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga. Þetta nær ekki til annarra félaga og ég tel að það hafi verið gerð mistök á þeim tíma sem þessi lög voru sett. Við ættum að nota tækifærið og breyta þessu.

Hvað með íþróttafélög, skógræktarfélög, björgunarsveitir? Þá sem byggja þak yfir höfuðið á mikilvægri starfsemi. Ættu þeir ekki að njóta þessa líka? Ég held það sé ekki svo erfitt að ná þessu fram en við ættum að skoða þetta núna á milli 2. og 3. umr.

Í 3. gr. er fjallað um tryggingagjaldið sem hefur aukist mjög eftir hrun og er í raun ekkert annað en launatengdur skattur á fyrirtæki sem verður mjög til að draga úr hvata fyrirtækja til að ráða til sín starfsfólk.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengdri kjarasamningum þann 5. maí 2011 segir um þetta, með leyfi forseta:

„Horfa verður til þess við ákvörðun atvinnutryggingagjaldsins að veruleg óvissa ríkir um þróun atvinnuleysis á næstu árum. Gangi fyrirliggjandi spár um lækkun atvinnuleysis á samningstímanum eftir myndast svigrúm til þess að lækka atvinnutryggingagjaldið.“

Svo mörg voru þau orð í yfirlýsingu tengdri kjarasamningum og eru menn svo eitthvað hissa á því að forsendur kjarasamninga séu að bresta í tengslum við þetta fjárlagafrumvarp og þau frumvörp sem nú liggja fyrir? Bæði samtök launþega og atvinnurekenda reyna að gera grein fyrir því að forsendur kjarasamninga séu að bresta vegna aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarflokkanna.

Það þarf ekki nokkurn að undra. Ekki er staðið við þær yfirlýsingar og þau loforð sem voru gefin í þessu sambandi og afleiðingarnar eru augljósar. Þær draga úr fjárfestingum, draga úr hvata fyrirtækjanna til þess að efla starfsemi sína og ráða fólk og svo er margt í þessu sem eykur álögur á almenning. Við sjáum að fjársýsluskatturinn svokallaði er í raun af sama tagi, þar er verið að beita sömu áhrifum gagnvart fjármálafyrirtækjum og afleiðingarnar verða augljósari í þeim efnum. Við munum tapa þar störfum.

Síðan er verið að hækka vörugjöld á ökutækjum, eða draga úr þeim afslætti sem bílaleigur hafa. Þetta skapar auðvitað enn meiri óvissu í ferðaþjónustunni. Það er alveg ljóst að ferðamunstur þeirra sem ferðast um landið er að breytast. Það er meira um að fólk ferðist á eigin vegum. Hækkunin mun koma niður á ferðaþjónustustarfsemi þannig að þetta mun sérstaklega hafa áhrif úti á landi, á þá gististaði sem byggja afkomu sína einmitt á þessari lausaumferð.

Við horfum á skattinn á raforku sem er einhliða framlengdur til ársins 2015, þrátt fyrir að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hafi sagt að honum ætti að ljúka á þessu ári. Hvaða skilaboð eru fólgin í þessari einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar, án nokkurrar tilraunar til þess að semja við þessi fyrirtæki um þessi mál? Það er hin pólitíska óvissa sem hefur verið sköpuð fyrir þá aðila sem vilja fjárfesta í þessu landi. Þá fjárfestingu sem okkur er svo bráð nauðsyn að fá til landsins en er ekki að koma hingað meðal annars vegna pólitískrar óvissu.

Þetta eru auðvitað skýr skilaboð til þessara aðila um að fara varlega þegar Ísland er skoðað sem fjárfestingarkostur fyrir framtíðaruppbyggingu fyrirtækja. Að fara varlega þegar stjórnvöld eins og þau sem nú sitja á valdastólum haga sér sem raun ber vitni.