141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er svo staðráðinn í því að vera hér uppi með bölmóð að ekki einu sinni á þeim degi sem tilkynnt er um stærstu fjárfestingu í sögu ferðaþjónustunnar á Íslandi getur hann fagnað eða glaðst heldur verður að hafa uppi hrakspár fyrir hönd ferðaþjónustunnar í landinu.

Um samhengi skatta og fjölgunar starfa og arðsemi þá hvet ég hv. þingmann til að lesa til að mynda skrif Warrens Buffetts, umsvifamesta fjárfestis veraldarinnar, hygg ég, nú um stundir, sem gerir mjög skýra grein fyrir því hvernig ekkert hafi verið gert síðastliðin 30 ár annað en að lækka skatta á hann og hans líka og hvernig að ekkert hafi komið út úr því til að auka hagvöxt í okkar heimshluta eða fjölga störfum. Enda hafi verðmætaaukning og fjölgun starfa verið miklu meiri á 20 ára tímabili þar á undan þegar stórfyrirtæki og hátekjumenn eins og hann þurftu að greiða mun hærri skatta. Fjárfestirinn sýnir það glögglega (Forseti hringir.) hvert samhengi þessara hluta er. Það er einfaldlega ekkert samhengi milli lágra skatta og verðmætasköpunar.