141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við ættum að fylgja formúlu hv. þingmanns væri hlutunum eflaust best komið þannig að við værum hér með nánast 100% skatt. Þá væri verðmætasköpunin sem mest og umsvifin sem mest, og þá hjá ríkinu, í þessu samfélagi. Það er einhver leið jafnvægis sem verður að ráða ferð. Að halda því fram að skattar og gjöld hafi ekki áhrif á það hver umsvif fyrirtækis geta orðið og hversu áhugavert er að fjárfesta til dæmis á landi eins og Íslandi er bara bábilja, stenst enga skoðun. Auðvitað er það eitt af grundvallaratriðunum. Af hverju vorum við að samþykkja hér lög á síðasta þingi um sérstakar skattaívilnanir fyrir fyrirtæki sem væru tilbúin að koma hingað og fjárfesta?

Ég er ekki með neinn bölmóð til handa ferðaþjónustunni en þetta er rýtingur í bakið á þessari mikilvægu atvinnugrein. Á degi þessarar stærstu fjárfestingar (Forseti hringir.) gleðst ég með forsvarsmönnum Icelandair og með starfsfólki þar og með þjóðinni að þetta fyrirtæki skuli vera að dafna sem raun ber vitni. En það er alveg ljóst (Forseti hringir.) að það er ekki fyrir tilstilli íslenskra stjórnvalda.