141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það í ræðu minni áðan að mörg atriði hefðu stuðlað að auknum umsvifum í íslenskri ferðaþjónustu. Með ívilnunum í skattamálum gæti hafa verið aukið á samkeppnishæfni landsins gagnvart öðrum löndum sem hafi aftur gert það að verkum að fólk hefur getað hugsað sér að koma hingað. Það skyldi þó ekki vera að það væri eitt af atriðunum, að það hafi aukið bjartsýni og þor? [Hlátur í þingsal.] Auðvitað spila mörg önnur atriði inn í, sérstakt markaðsátak og svo eldgos sem vakti mikla athygli á landinu, allt hefur það hjálpast að. En samkeppnishæfni okkar er að skerðast og mikil hætta er á því að það hafi neikvæð áhrif á þessa grein.

Það þarf mjög litla breytingu í þessum efnum til að þessi skattheimta glatist vegna þeirrar afleiðingar sem hún hefur á fjölda ferðamanna, þ.e. að þeim fækkar. (Forseti hringir.) Það er mjög líklegt að við fáum, þegar upp verður staðið, færri krónur í vasann. Það er bara oft þannig með aukna skattheimtu að (Forseti hringir.) hún skilar, þegar upp er staðið, færri krónum í vasann.