141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Þess ber að geta strax í upphafi að sú aðgerð að ganga ECS-kerfinu á hönd í gegnum þá umsókn sem liggur hjá Evrópusambandinu leiðir af sér að við erum ekki samkeppnishæf á Evrópugrunni gagnvart umheiminum öllum. Eins og hefur komið fram á fundi umhverfisnefndar hafa flugrekendur í Bandaríkjunum hafa hafnað því, bandaríska þingið hefur sett lög þar sem því er hafnað. Verið er að búa til sérevrópskt kerfi, nokkurs konar kvótakerfi eins og við þekkjum úr sjávarútveginum, þar sem verið er að útdeila losunarheimildum til ríkja samkvæmt mengunarreynslu sem er svo hægt að veðsetja og selja og bera öll einkenni eignarréttar. Þar að auki getur bæði fyrirtækjum og einstaklingum verið heimilt að borga það.

Nú hefur það gerst að Kyoto-bókunin er í uppnámi því hún rennur út 31. desember á þessu ári. Stærstu ríkin í kringum okkur, eins og Kanada, Bandaríkin, Ástralía, Nýja-Sjáland, Indland, og lengi mætti telja, hafna því að taka þátt í frekara samstarfi á þeim grunni sem Kyoto-bókunin byggir á. Íslenska flugið stendur því frammi fyrir því að dýrara verður fyrir íslenska flugrekendur að stunda millilandaflug því það þarf að borga kolefnisgjald þar til komið er út úr lofthelgi Evrópusambandsins og þá eru þeir losunarheimildarlausir. Það þýðir að bandarískur flugrekstraraðili sem flýgur hingað og til baka þarf ekki að greiða neitt. Við verðum fyrir stórkostlegu tjóni með því að hafa tekið upp þetta kerfi vegna þess að íslensk flugfélög eru ekki samkeppnishæf við þá sem standa utan Evrópusambandsins. Svo er álversumræðan náttúrlega alveg eins.