141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða tekjuáætlanir ríkisstjórnarinnar í sambandi við fjárlögin fyrir árið 2013 eða ráðstafanir í ríkisfjármálum sem gengur undir nafninu bandormur en ég kalla alltaf kyrkislöngu. Hæstv. ríkisstjórn er enn á sömu vegferðinni. Það er verið að bæta við nýjum sköttum, framlengja þá sem áttu að vera tímabundnir o.s.frv. Það er auðvitað staðfesting á þeim mistökum sem hafa átt sér stað við hagstjórn landsins. Það hefur algerlega mistekist að fjölga störfum og koma hjólum atvinnulífsins í gang.

Það er líka nokkuð merkilegt að fara yfir hvaða áhrif það hefur á vísitöluna. Það er áætlað að þeir skattar sem hafa áhrif á vísitöluna séu um 0,25%. Ég spurði þegar þeir komu frá fjármálaráðuneytinu til fjárlaganefndar hver áhrifin væru á vísitöluna og var sagt að þau væru 0,2–0,3%. Niðurstaðan varð sú að menn gætu þá reiknað með um 0,25% sem færi beint inn í vísitöluna, af þeim skattkerfisbreytingum sem hér eru boðaðar. Þær eru kannski stærstar af svokölluðum sköttum sem snúa að áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi. Ef það er sett í samhengi við það sem hefur komið fram í umræðunni mun bara hækkunin á tóbaksgjaldi hækka skuldir heimilanna um 3 milljarða en þær eru um 1.750 milljarðar. Við getum hækkað þá tölu um 0,25% því þótt sumar skuldir heimilanna séu óverðtryggðar mun þetta leita inn í óverðtryggðu vextina innan mjög skamms tíma. Það má eiginlega segja að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar séu enn ein herferðin gegn heimilunum í landinu og munu hækka lán heimilanna um 4,5 milljarða kr. Það eru fyrstu áhrifin.

Síðan er líka mjög athyglisvert í ljósi þess að þegar við skoðum skattana sem eiga að koma inn, hvort heldur er áfengisgjaldið eða tóbaksgjaldið, hafa þeir því miður oft og tíðum ekki skilað sér. Þó svo að skatttekjur ríkissjóðs hafi á undanförnum árum í raun og veru skilað sér í heild sinni hefur yfirleitt alltaf verið samdráttur í þeim sköttum. Það er auðvitað það fyrsta sem er mjög varhugavert við skattkerfisbreytingarnar sem hafa bein áhrif á heimilin, fyrir utan auðvitað að ráðstöfunartekjurnar minnka.

Það er nefnilega nokkuð merkilegt að skoða hlutina í samhengi og því langar mig, áður en ég fer að ræða einstakar breytingar í frumvarpinu, að rifja upp það sem gerðist fyrir ári síðan þegar fjársýsluskatturinn var settur á í fyrsta skipti. Hvað kom þá fram? Þar kom skýr stefna ríkisstjórnarinnar fram. Hún er alveg skýr í frumvarpinu sem var mælt fyrir fyrir ári síðan hvað varðar atvinnuuppbygginguna í landinu og skattstefnuna. Þar stendur markmið frumvarpsins, og það er ekki ég sem held því fram heldur er það skrifað inn í frumvarpið af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni. Hvað stendur þar? Ég ætla að fá að vitna í orðrétt, með leyfi forseta, í hæstv. fjármálaráðherra þess tíma, Steingrím J. Sigfússon, sem sagði að þetta væru markmið ríkisstjórnarinnar:

„Loks er viðbúið að fjársýsluskattur hafi áhrif á þróun atvinnugreinarinnar í heild. Auknar álögur af þessu tagi færa rekstrarumhverfi fyrirtækja í fjármála- og vátryggingastarfsemi nær því sem aðrar greinar atvinnulífsins búa við og eru til þess fallnar að draga úr launahækkunum og halda aftur af nýráðningum.“

Þetta eru skýr markmið og hér viðurkennir hæstv. ríkisstjórn og þáverandi hæstv. fjármálaráðherra hver markmiðin eru, að koma í veg fyrir launahækkanir og draga úr nýráðningum. Það stendur skýrum stöfum í frumvarpinu og það er ekki hægt að segja við hæstv. ríkisstjórn að stefna hennar sé ekki ljós þegar svona frumvörp eru lögð fram af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Það er auðvitað staðfesting á því að ríkisstjórnin er enn á þeirri sömu stefnu að koma í veg fyrir launahækkanir og draga úr nýráðningum. Stefnan gæti ekki verið skýrari og var markmið frumvarpsins á sínum tíma.

Það er merkilegt að skoða hvað er að gerast í þessu frumvarpi. Það er oft talað um þrjár undirstöðugreinar á landinu. Það er annars vegar — [Kliður í þingsal.] það er nóg af lausu plássi í húsinu þannig að það er óþarfi að hafa tvo fundi hér inni — það er kannski fyrst og fremst talað um sjávarútveginn. Við þekkjum auðvitað aðför ríkisstjórnarinnar að sjávarútveginum. Síðan komum við að stóriðjunni. Við þekkjum líka viðhorf hæstv. ríkisstjórnar til hennar, endalausar árásir og svik. Það kemur mjög skýrt fram í bréfi sem við fengum frá einum í hv. fjárlaganefnd við vinnslu á fjárlagagerðinni, þar sem er vitnað í sérstakt samkomulag undirritað af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, um að taka fyrir fram 3,6 milljarða af framtíðarskatttekjum þessara fyrirtækja. Það var ágætt að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir skyldi rifja það upp í ræðu sinni áðan þegar menn ætluðu að taka vel á annan tug milljarða af þeim gjöldum. Það sáu auðvitað allir hversu brjálað það var og í framhaldi af því gerði ríkisstjórnin skriflegt samkomulag við þá aðila um að greiða fyrir fram 1.200 millj. á ári, alls 3,6 milljarða, sem auðvitað þarf að byrja að greiða til baka þegar kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar lýkur. Það er svikið og nú er fyrirtækið sem sendi bréfin til hv. fjárlaganefnd að hugsa um að leita réttar síns fyrir dómstólum. Það er allt á sömu bókina lært.

Síðan var ein atvinnugrein sem hæstv. ríkisstjórn átti eftir að ráðast á og það var ferðaþjónustan. Hvað er gert gagnvart henni? Það er allt þetta samráð sem við þekkjum auðvitað best úr sjávarútveginn hvernig hefur verið háttað. Það er ekkert samráð haft við ferðaþjónustuna. Það stendur: 25,5% virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna en svo er ekkert samráð haft við hana heldur er það bara sett svona fram. Við hvaða aðstæður býr sá rekstur? Fólkið sem rekur fyrirtæki þarf að selja langt fram í tímann og gefa verð langt fram í tímann og það gat því ekki farið að breyta því. Maður hefur auðvitað rætt við fullt af fólki innan ferðaþjónustunnar sem hefur sagt: Við höfum meira að segja sent út bréf um hvort við gætum fengið verðlagningunni hnikað eitthvað vegna breytinganna. Við vissum ekki af þessum skatti. Er hugsanlegt að ferðaþjónustuaðilarnir sem eru búnir að bóka sig næsta sumar og jafnvel þar næsta sumar geti að hluta til tekið þátt í honum? Svörin voru alveg skýr: Nei, það gengur auðvitað ekki. Menn breyta ekki því sem búið er að semja um.

Við munum eftir því uppþoti sem varð þegar þetta kom fram og aðilar í ferðaþjónustunni og fleiri mótmæltu því náttúrlega harðlega. Hvað gerði hæstv. ríkisstjórn þá? Það var skipaður samráðshópur eftir á, ekki fyrir fram. Viðtalið við einn í hópi fyrir hönd ferðaþjónustunnar var athyglisvert, þegar ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra sögðu: Nú höfum við ákveðið að leggja til 14% virðisaukaskatt og gildistakan er 1. júní. Hvað gerðist þá? Hópnum var ekki kynnt þetta. Sá sem sat í samráðshópnum heyrði það í fjölmiðlum. Það gefur auðvitað augaleið að það sem hæstv. ráðherra var að gera var ekki að hlusta á aðila í ferðaþjónustunni. Hann var að semja við þingmenn Bjartrar framtíðar. Það var það sem gerðist, það var ekkert samráð haft nema á yfirborðinu. Þannig er framkoman í því máli sem og í öllum öðrum málum. Manni dugar yfirleitt ekki kortersræða til að fara yfir svik ríkisstjórnarinnar, það er algerlega útilokað

Næst tökum við vörugjöldin á bílaleigunum. Hvaða áhrif hafa þau? Það hefur komið skýrt fram í ábendingum frá þeim sem sjá um rekstur bílaleigna hér á landi að það mun í fyrsta lagi verða til þess að bílaleigurnar geta ekki endurnýjað bílana jafnört og æskilegt er.

Bílaleigurnar hafa með nýrri bílum og meiri endurnýjun getað tekið svokallað kílómetragjald af, þ.e. hámarkskílómetrafjölda sem má aka á hverjum degi. Bílaleigurnar munu leggja gjaldið aftur á vegna þess að nú fer bílaflotinn fara að eldast og það þarf að nota bílana í fleiri ár. Afleiðingin er fyrirséð, eins og einn ágætur einstaklingur sem kom á fund hjá okkur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sagði: Við munum hafa hámarkskílómetrafjölda sem má keyra á dag. Ef maður kemur og leigir bíl í viku margfaldast það með dagafjölda og augljóst að draga mun úr ferðalögum út á landsbyggðina, sérstaklega til þeirra svæða sem eru lengst í burtu. Það verður meiri keyrsla í kringum Suðurlandið og næst Reykjavík. Hvaða áhrif hefur það á uppbyggingu ferðaþjónustunnar einmitt á viðkvæmustu stöðunum? Það mun draga úr henni.

Það sem bílaleigurnar hafa verið að gera er líka merkilegt. Þær hafa verið að endurnýja bílaflotann með því að kaupa hagkvæmari og þar af leiðandi eyðslugrennri bíla vegna þeirrar öru þróunar sem er á þessum vettvangi. Hvað mun gerast? Það mun auðvitað draga úr endurnýjun vistvænna bíla. Það er allt á sömu bókina lært og menn hafa mjög miklar efasemdir um að vörugjöld á bílaleigur muni skila sér.

Eitt dæmi enn eru skuldbindingar ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninganna: Við lækkum atvinnutryggingagjaldið. Að sínu áliti stóð ríkisstjórnin klárlega við það. En hvað gerði hún um leið? Hún hækkaði almenna tryggingagjaldið jafnmikið þannig að niðurstaðan varð sú sama fyrir fyrirtæki. Að sínu mati stóð ríkisstjórnin við sitt. Það endaði í þrefi og núna er lækkað til baka um 0,1% í staðinn fyrir 0,4 þannig að alltaf er verið að svíkja það sem á að gera. Þetta er auðvitað algerlega óþolandi.

Frá og með 1. janúar verður opnað aftur á úttektir á séreignarsparnaðinum. Áætlað er að það muni skila ríkissjóði 1,5 milljörðum. Ég verð að viðurkenna að það er mikið áhyggjuefni hvað búið er að taka út háar upphæðir. Það er búið að taka um 80 milljarðar út úr séreignarsparnaðinum og það geta allir sett í samhengi við framtíðina. Það eru auðvitað framtíðartekjurnar sem á að standa undir og það er svo nátengt lífeyrisgreiðslum og öðru svo það er áhyggjuefni að við skulum þurfa að halda áfram á þeirri braut. Það var farið af stað með þetta tímabundið til að komast yfir erfiðasta hjallann en enn er haldið áfram sem er frekari staðfesting á því að ríkisstjórninni hefur ekki tekist það ætlunarverk sitt að ná upp atvinnulífinu, skapa fleiri störf og möguleika fyrir fólk til að sjá fyrir sér, sem er auðvitað mikilvægast.

Það er slæmt að því leyti til að við göngum á framtíðarsparnaðinn. Ef maður setur það í samhengi við það sem kom fram í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar við fjárlagaumræðuna, sem við vorum í atkvæðagreiðslu um fyrr í dag, þá hafa innlán heimilanna minnkað um 300 milljarða, úr 900 niður í 600 á skömmum tíma. Það er mikið áhyggjuefni því við vitum hvað drífur áfram hagvöxtinn hérna. Það er fyrst og fremst einkaneysla. Þegar hæstv. atvinnu- og nýsköpunarráðherra og hæstv. innanríkisráðherra voru í stjórnarandstöðu héldu þeir langar ræður og höfðu stór orð um hversu varhugavert væri að byggja hagvöxtinn á svona loftbólum og sandi, eins var sagt frá. En hvað dregur þetta áfram núna? Það er verulegt áhyggjuefni hvernig er staðið að því. Við blasa nýir skattar, framlenging á þeim sem áttu að vera tímabundnir, sem staðfestir að ríkisstjórninni hefur mistekist að koma hjólum atvinnulífsins í gang og gefa fyrirtækjunum svigrúm til að skapa störf. Markmið ríkisstjórnarinnar kemur skýrast fram í því frumvarpi sem ég nefndi áðan, að draga úr getu fyrirtækjanna til að hækka laun og ráða fólk. Ríkisstjórnin hefur klárlega þá stefnu, skýrara getur það ekki verið.