141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór yfir þær þrjár stoðir sem gjaldeyrisöflun okkar hvílir á; álið, fiskinn og ferðaþjónustuna. Hann kom að vísu lítillega inn á fiskinn en aðallega inn á ferðaþjónustuna og talaði um fyrirframgreiðslurnar sem hæstv. þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon fór fram á við stóriðjuna að yrðu greiddar allt til ársins 2018 og þá brostnu samninga sem fylgdu í kjölfarið. Ég segi eins og fleiri, það er ekki nema von að atvinnulífið sé búið að gefast upp á þessari ríkisstjórn vegna þess að meira að segja skriflegir samningar standa ekki.

Svo fór þingmaðurinn yfir hækkunina á tóbaki og áfengi. Það er ekkert verið að finna upp hjólið, þetta leiðir að sjálfsögðu til aukinnar heimagerðar og smygls, það hefur alltaf sýnt sig enda er alveg sama hvað þetta hefur verið hækkað undanfarin ár. Það dregur úr neyslu og fólk leitar annarra leiða. Þetta er einstaklega mikil ábyrgð af ríkisstjórninni að fara af stað með enn frekari hækkanir á þessum vörum. Nú er t.d. í menntaskólum farið að vara mjög við því að ungt fólk sæki frekar í heimaræktað maríjúana til að komast í vímu vegna þess að áfengi, t.d. bjór, er orðið svo dýrt.

Mig langar til að spyrja þingmanninn — af því að hann kom inn á virðisaukaskattinn af hótel- og gistirýmum. Þáverandi fjármálaráðherra Oddný Harðardóttir taldi að ferðaþjónustan væri ríkisstyrkt út af því að það væri einungis 7% virðisaukaskattur á greininni. Lagt var til að þetta færi upp í EFTA-virðisaukaskattsþrepið og væri skattlagt eins og aðrar vörur og þjónusta. Er þessi atvinnugrein ekki álíka mikið ríkisstyrkt að mati Samfylkingarinnar, þegar er bara verið að hækka skattinn í 14%?