141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst það sem hv. þingmaður spurði um í sambandi við svik ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað óþolandi að það er sama hvort það er ASÍ, SA eða stóriðjan, hver sem gerir samkomulag við hæstv. ríkisstjórn, að niðurstaðan sé alltaf sú að ríkisstjórnin svíkur samkomulagið.

Hv. þingmaður vitnaði til þess sem var gert við fyrirframgreiðslur á skatti frá stóriðju. Ég sé skriflega undirskrift frá hæstv. fjármálaráðherra, það fer ekkert á milli mála. En það er einhvern veginn að þeirra mati einskis virði, sem segir auðvitað mest um það hvað ríkisstjórnin ber mikla virðingu fyrir eigin verkum gagnvart þeim sem standa við sína hluti.

Það er hins vegar nýtt sem kom upp fyrir nokkrum vikum í þinginu eins og hv. þingmaður veit, það er þetta svokallaða þegjandi samkomulag. Það er kannski það sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að standa fyrir. Auðvitað er ég sammála hv. þingmanni og ég kom inn á það í ræðu minni sem snýr að hækkun vísitölunnar með óbeinum skattahækkunum á bæði áfengi, tóbaki og annað. Bara það hækkar lán heimilanna um 4,4 milljarða. Eins og hv. þingmaður bendir á þá leiðir það til þess að menn fara að brugga, vera með landa. Akkúrat þetta hefur komið fram í fréttum á undanförnum dögum sem segir okkur að tekjurnar munu ekki skila sér. Aðgerðin skilar kannski svipuðum skatttekjum en hækkar lán heimilanna um 4,4 milljarða. Þetta er auðvitað algerlega galið.

Síðan eru menn farnir að flækja svo skattkerfið. Ferðaþjónustan er allt í einu komin með fjögur virðisaukaskattsþrep inn í sinn rekstur. Hvernig haldið þið að sé að halda utan um kostnaðinn við það fyrir fyrirtækin? Svo ég tali ekki um kostnað fyrir ríkissjóð að halda utan um alla þessa vitleysu. Það verður að einfalda þessi skattþrep, hætta að flækja þau, það er nóg komið.