141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af þessu sem hv. þingmaður endaði á þá finnst mér ekki þurfa að nota mörg orð um þetta. Mér finnst þetta eiginlega bara dæma sig sjálft að atvinnurekstur sem er í umhverfi sem er 7% virðisaukaskattur — eins og í þessu tilfelli ferðaþjónustan. Hæstv. fjármálaráðherra sem hækkaði í 25,5% kom fram á sínum tíma og sagði: Ja, annars er þetta bara ríkisstyrkur. Síðan útskýrði ferðaþjónustan með hvaða hætti þetta gengur fyrir sig. Það dæmir sig eiginlega sjálft hvers konar vitleysa þetta er.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að mikilvægt sé að hafa skattkerfið mjög einfalt. Þessi flækjustig kosta öll óhemjufjármagn bæði fyrir fyrirtæki — hvaða afleiðingu hefur það? Það verður hvorki hægt að hækka launin né ráða fleira starfsfólk.

Síðan hefur þetta líka mjög mikinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð sjálfan, þ.e. að vera að breyta kerfunum, fylgjast með og halda utan um þau. Þetta er algerlega útilokað mál og það fer svo mikið í sjálft sig út af þessu. Við erum búin að ræða svo margt.

Það eru kannski ekki neinar góðar skattkerfisbreytingar, en þær eru samt nokkuð merkilegar og ég er hrifinn af einni þeirra, svokallaðri endurgreiðslu á virðisaukaskatti í sambandi við framkvæmdir við heimili, sumarbústaði og slíkt. Hver eru rökin fyrir því? Þau eru að með því að maður fái virðisaukaskattinn endurgreiddan af launum sem eru unnin á staðnum er það atvinnuhvetjandi. En það gildir ekki um annað þannig að það er mjög mikil mótsögn í þessu. Skattalegir hvatar hafa auðvitað áhrif, alveg sama í hvaða atvinnugrein þeir eru þannig að þetta dæmir sig sjálft gagnvart því að þetta gildi ekki sama um ferðaþjónustuna eða aðra. Þetta er umræða sem er algerlega úti á túni.